Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að konan hafi verið á leið heim úr vinnu og virðist svo vera sem hún hafi sofnað undir stýri. Jepplingur konunnar lenti upp á vegriði við brú þar sem það er sveigt ofan í jörð og vegriðið því eins og stökkpallur að sögn Jóns.
Jepplingur konunnar ferðaðist hundrað metra niður ána en konan náði að koma sér út úr honum og hékk á varadekki hans aftan á bílnum þegar vegfarandi varð hennar var og gerði björgunarsveitum viðvart.
Jón segir ekki ljóst hve lengi konan var í fljótinu áður en hennar varð vart. Björgunarsveitir fóru á tuðru út á fljótið og komst björgunarmaður til hennar á bílnum, þar sem hún var færð upp á þakið þar sem fór betur um hana, að sögn Jóns.
Konan er ekki alvarlega slösuð en var köld og smeyk. Hún var hífð upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar og flutt á Landspítalann.
