Hingað til hefur aldur verið talinn þannig í Suður-Kóreu að um leið og barn fæðist er það álitið eins árs gamalt. Þá bætist ár við 1. janúar en reglurnar hafa þannig orðið til þess að barn sem fæðist á gamlársdag verður tveggja ára daginn eftir.
Kerfið hefur sætt aukinni gagnrýni síðustu ár og ýmsir bent á að það sé til þess fallið að rugla fólk og gefi þá mynd að Suður-Kórea, sem er að mörgu leyti leiðandi í tækni- og menningarmálum, sé úr takti við umheiminn.
Skoðanakönnun sem framkvæmd var í fyrra leiddi í ljós að um 70 prósent þjóðarinnar vildu ráðast í breytinguna. Stjórnvöld segja hana munu draga úr flækjum sem hafa orðið vegna reiknireglunnar en nokkuð er síðan vikið var frá henni á ýmsum sviðum, meðal annars í heilbrigðisþjónustu.
Það er þó vert að geta þess að þriðja aðferðin við að reikna aldur verður áfram við lýði í Suður-Kóreu, sem meðal annars er notuð í skólakerfinu; að byrja að telja frá núlli við fæðingu og bæta einu ári við á nýársdag.