Átta eru sagðir særðir eftir árásina í Tel Aviv, þar af þrír lífshættulega. Kobi Shabtai, lögreglustjóri, sagði fréttamönnum að óbreyttur borgari hafi skotið árásarmanninn til bana. Árásarmaðurinn var tvítugur íbúa Vesturbakkans sem hafði ekki leyfi til að koma til Ísraels, að sögn ísraelsku leyniþjónustunnar. Hann hafi ekki verið á sakaskrá.
Itamar Ben-Gvir, þjóðaröryggisráðherra Ísraels sem kemur yst af hægri væng ísraelskra stjórnmála, flýtti sér á vettvang árásarinnar og lofaði hugrakkan borgara sem skaut árásarmanninn. Kallaði hann eftir því að fleiri almennir borgarar gengu um vopnaðir.
Hamas-samtökin lofuðu árásarmanninn og sögðu hann hafa dáið píslavættisdauða. Árásin væri „hetjuleg“ hefnd fyrir aðgerðir Ísraelshers í Jenín á Vesturbakkanum sem hófust í fyrrinótt. Ekki er ljóst hvort að árásarmaðurinn hafi verið á vegum samtakanna eða staðið einn að verki, að sögn AP-fréttastofunnar. Íslamskt jíhad, önnur samtök palestínskra íslamista, lofuðu einnig árásina.
Ungmenni eða saklaust fólk á meðal tíu látinna
Tíu Palestínumenn eru nú sagðir fallnir í aðgerðum Ísraela í Jenín sem eru þær umfangsmestu tæp tuttugu ár. Ísraelar segja að flestir þeirra látnu séu vígamenn en einhver ungmenni sem mótmæltu aðgerðunum með grjótkasti og saklaust fólk hafi einnig fallið.
Aðgerðirnar héldu áfram í dag. Þúsundir íbúar í borginni hafa lagt á flótta. Ísraelskir hermenn hafa meðal annars rutt sér leið með jarðýtum og skemmt íbúðarhús.
Ísraelsher segist hafa lagt hald á sprengiefni og vopn í aðgerðunum í dag. Þá hafi hann eyðilagt göng undir mosku í flóttamannabúðunum. Ísraelskir fjölmiðlar segja herinn hafa tekið að minnsta kosti 120 meinta vígamenn höndum frá því í gær.