Mack var dæmd í þriggja ára fangelsi en slapp við þyngri refsingu þar sem hún hjálpaði saksóknurum að sækja Keith Raniere, höfuðpaur Nxivm-hópsins til saka. Hann var dæmdur í 120 ára fangelsi fyrir mansal og fleiri glæpi árið 2020.
Raniere misnotaði sumar konur sem Mack tældi í hópinn kynferðislega. Aðrar voru brennimerktar með skammstöfun á nafni hans við leynilegar athafnir, að sögn New York Times.
Dómarinn í málinu sagði að Mack hefði notað frægð sína sem leikkona til þess að tæla konur fyrir Raniere. Hún hefði verið einn helsti samverkamaður leiðtogans. Hún viðurkenndi fyrir dómi að hafa fengið konur í hópinn með því að segja þeim að hann væri einhvers konar stuðningshópur fyrir konur.
Mack var helst þekkt fyrir leik sinn í þáttunum „Smallville“ sem fjölluðu um ofurhetjuna Ofurmennið. Hún lýsti iðrun gjörða sinna í bréfi sem hún skrifaði árið 2021. Hún hefði helgað sig algerlega kenningum Raniere sem áttu að leiða hana að betra lífi.
„Þetta voru mestu mistök og eftirsjá lífs míns,“ sagði Mack í bréfinu sem hún stílaði á þá sem hefðu þjáðst fyrir gjörðir hennar.