„Þegar ráðuneytið mitt hefur verið beðið um aðgang að þessari skýrslu þá höfum við viljað fylgja lögum og við teljum okkur hafa verið að gera það,“ sagði Bjarni aðspurður um birtingu Pírata á greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvolsmálið í gær.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hann teldi Pírata hafa brotið trúnað. „Ég held að þetta sé ekki gott fordæmi fyrir þingið um meðferð trúnaðarupplýsinga og ágreiningur um það hvernig eigi að fara með trúnaðargögn þurfi að leysa innan þingsins,“ segir Bjarni sem vildi ekki tjá sig sérstaklega um greinargerðina eða innihald hennar.
„Ég hef nú ekkert lesið þessa greinargerð sérstaklega og ætla ekkert að fara tjá mig um hana út af fyrir sig. En það liggur hins vegar fyrir að þessari greinargerð var svarað með andmælum frá þeim sem athugasemdirnar beinast að. Það virðist enginn á þinginu eða í fjölmiðlum hafa áhuga á því að sjá hina hlið málsins. Enda er fólk ekki í neinni staðreyndaleit. Það er verið að leitast við að þyrla upp ryki og varpa skugga á störf þeirra sem þarna koma að málum,“ sagði Bjarni um málið að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.