Innlent

Tvær konur féllu af hest­baki á há­lendinu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Björgunarfólk hjálpaði tveimur konum sem féllu af hestum í dag.
Björgunarfólk hjálpaði tveimur konum sem féllu af hestum í dag. Landsbjörg

Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Landmannalaugum fékk tvær beiðnir um aðstoð þar sem kona hafði fallið af hestbaki. Önnur konan var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús.

Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var önnur konan í hópi hestafólks. Um tuttugu til þrjátíu voru í hópnum sem var að koma frá Landmannahelli og ætlaði inn í Landmannalaugar. Konan féll af baki við Frostastaðavatn og óttaðist hópurinn að hún hefði hlotið hryggáverka.

Þegar tilkynningin barst hélt björgunarfólk á staðinn og bjó konuna til flutnings. Ákveðið var að fá þyrluna til að flytja hana á sjúkrahús. Aðstæður á slysstað voru þó með þeim hætti að ekki var hægt að lenda þyrlunni þar. Konan var því flutt skamma leið með bíl björgunarsveitar og færð í þyrluna.

Annað samskonar óhapp varð svo á svipuðum slóðum í dag. Þar féll einnig kona af hestbaki en sú hlaut höfuðáverka við fallið. Hún var flutt í bíl björgunarsveitar til móts við sjúkrabíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×