Töluvert af minni skjálftum greindist einnig í nótt en að öðru leyti er lítið að frétta, ef svo má segja, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Vel yfir ellefu þúsund jarðskjálftar hafa greinst frá 4.júlí en enn hefur ekki gosið, þó talið sé að kvika sé grunnt undir yfirborðinu við Keili.
„Í rauninni er staðan bara sú að kvikan virðist að öllum líkindum vera mjög grunnt og það er eiginlega ekki hægt að segja neitt meira eða nákvæmara heldur en það. Svo er bara að bíða og sjá hvort hún nái að brjótast upp þennan síðasta áfanga eða ekki,“ sagði Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu í gær.