Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá. Þar kemur meðal annars fram að kvikan sem flæði upp ganginn sé greinilega ekkert að flýta sér að ná á yfirborðið.
Þá segir þar ennfremur að komið hafi í ljós að gígarnir og hraunið frá því í gosinu í fyrra hafa tekið verulegum breytingum á þeim tíma sem liðið hefur frá goslokum og hreinlega skroppið saman. Breytingarnar tengjast fyrst og fremst kólnun hraunsins og samþjöppun á holrýmum innan þess.
„Vek athygli á gráskyggða svæðinu, sem frá og með þessum degi hefur verið í skjálftaskugga: Ein möguleg túlkun á þessu fyrirbæri er að kvikan sé að safnast þar fyrir einfaldlega vegna þess að hún á erfitt með að komast alla leið til yfirborðs. Ef yfirþrýstingurinn í kvikunni verður meiri en togstyrkur skorpunnar ofan við, þá brestur haftið og kvikan rís til yfirborðs í eldgosi.“