Fótbolti

Manchester City fékk 600 milljónir frá FIFA

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gianni Infantino er forseti FIFA.
Gianni Infantino er forseti FIFA. Vísir/Getty

Manchester City var það félag sem fékk mest greitt frá FIFA vegna leikmanna sem tóku þátt á heimsmeistaramótinu í Katar á síðasta ári. Alls fékk City um 600 milljónir í sinn vasa.

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór fram í Katar í lok síðasta árs og eins og frægt er orðið voru það Argentínumenn með Lionel Messi í broddi fylkingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA borgar félagsliðum vegna þeirra leikmanna sem taka þátt í mótinu og er þá miðað við hvern dag sem leikmaður er fjarverandi frá sínu liði. Alls eru greidd rúmlega 9000 pund fyrir hvern leikmann hvern dag sem hann er fjarverandi en 837 leikmenn tóku þátt í mótinu.

Nýkrýndir Evrópu- og Englandsmeistarar Manchester City var það félagslið sem fékk mest borgað frá FIFA. City fékk rétt rúmar 3,5 milljónir punda sem gerir um 600 milljónir íslenskra króna. Barcelona, Bayern Munchen, Real Madrid og PSG voru næst á listanum.

Ef upphæðir eru skoðaðar út frá deildum voru það lið úr ensku deildinni sem fengu mest borgað en alls fengu ensk félög 37,7 milljónir punda í greiðslur. Lið í deildum í Evrópu fengu samtals 76% af þeim peningum sem FIFA borgaði út eða 158,9 milljónir punda.  Alls fengu 440 félög greiðslu frá FIFA.

Forseti FIFA, Gianni Infantino, hefur staðfest að sambandið muni hækka upphæðina fyrir mótin 2026 og 2030 en þá verður þátttökuþjóðum einnig fjölgað úr 32 í 48.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×