Arnór fékk tækifæri til að koma gestunum í Norrköping yfir af vítapunktinum strax á sjöttu mínútu leiksins, en lét verja frá sér. Hann var þó fljótur að hugsa og skoraði úr frákastinu og kom gestunum þar með yfir.
Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Arnór fékk svo annað tækifæri af vítapunktinum þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka og í þetta skipti skoraði hann í fyrstu tilraun.
Heimamenn minnkuðu svo muninn þegar um tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og þar við sat. Niðurstaðan því 2-1 útisigur Norrköping og liðið situr nú í sjötta sæti deildarinnar með 22 stig eftir 15 leiki, þremur stigum meira en Mjallby sem situr í níunda sæti.