Ákvörðun Rússa felur í sér óbeina hótun um að þeir muni ráðast á skip sem flytja korn og áburð frá Úkraínu um Svartahaf. Rússar vilja með þessu þrýsta á Vesturlönd að láta af ýmsum refsiaðgerðum gegn þeim.

Þótt þeir segi Vesturlönd hindra þeirra kornútflutning, hafa Rússar slegið met í sínum útflutningi á korni og áburði í sumar. Stjórnvöld í Úkraínu leggja áherslu á að allra leiða verði leitað til að tryggja útflutning þeirra bæði á sjó og á landi.

Dmytro Kulebautanríkisráðherra Úkraínu fundaði með Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og fleirum í New York í dag. Ef pólitískur vilji væri fyrir hendi væri hægt að finna lausn á málinu.
„Rússar auka líkurnar á hungursneyð í ríkjum Asíu og Afríku og að verð á matvælum hækki.,“ segir Kuleba. Nú hefðu Rússar gefið umheiminum enn einn hausverkinn. Þessum skollaleik Rússa verði að ljúka.
„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að á meðan Rússar eru á Krím og að á meðan þeir komast upp með að kúga og þröngva vilja sínum upp á alla aðra verður þessi vandi viðvarandi. Þótt við leysum þennan vanda stöndum við frammi fyrir öðrum vanda eftir einn eða tvo mánuði. Besta lausnin væri því að sigra Rússa og þvinga þá til að draga herlið sitt til baka,“ sagði Dmytro Kuleba í New York í dag.