Myndband náðist af Peter Stager berja meðvitundarlausan Blake Miller ítrekað með fánastöng þar sem lögregluþjónninn lá varnarlaus á stéttinni við þinghúsið.
Eftir að hann réðst á Miller sást Stager benda á þinghúsið og kalla: „Allir þarna inni eru til skammar. Öll byggingin er full af svikurum. Dauði er eina lausnin á því sem er í þessari byggingu.“
Þennan dag ruddustu stuðningsmenn Donalds Trump, fyrrverandi forseta, inn í þinghúsið með því markmiði að koma í veg fyrir formlega staðfestingu á úrslitum forsetakosninganna 2020. Trump tapaði þeim kosningum fyrir Joe Biden, núverandi forseta, en hefur ítrekað logið því að hann hafi í raun unnið og kosningasvindl hafi kostað hann sigur.
Trump heldur því enn fram en hann sagði nýverið að Mike Pence, varaforseti hans, bæri ábyrgð á árásinni. Það væri vegna þess að Pence hafi ekki hjálpað sér að snúa við úrslitum kosninganna.
Í frétt New York Times er vitnað í dómsskjöl þar sem haft er eftir lögmanni Stager að hann hafi átt erfiða æsku og verið heimilislaus lengi. Svo hafi hann orðið vörubílsstjóri og endað starfs síns vegna í Washington DC þann 6. janúar 2021.
Hann hafi ákveðið að fara á samstöðufund Trumps og þeirri ákvörðun muni hann alltaf sjá eftir. Lögmaður Stager segir hann hafa fyrst reynt að aðstoða fólk sem hafi særst í átökunum við þinghúsið en hann hafi orðið svo reiður að hann hafi misst stjórn á skapi sínu.
Saksóknarar höfðu farið fram á að Stager yrði dæmdur í sex ára og sex mánaða fangelsi, samkvæmt AP fréttaveitunni. Í heildina voru níu menn ákærðir fyrir að ráðast á Miller og tvo aðra lögregluþjóna. Búið er að dæma þrjá þeirra í þriggja til fimm ára fangelsi.
Í heildina hafa fleiri en þúsund manns verið ákærð vegna árásarinnar á þinghúsið. Einn maður sem réðst á lögregluþjón með stól og piparúða var dæmdur í fjórtán ára fangelsi og annar var beitti rafbyssu á lögregluþjón fékk tólf ára fangelsisdóm.
Myndband af árás Stager á Miller má sjá hér að neðan.