Tilefnið er að minnast þess að sjötíu ár eru liðin frá vopnahléssamningum í kóreustríðinu sem geisaði á árunum 1950 til 1953. Kim Jong Un einræðisherra hefur boðað til viku hátíðarhalda vegna þessa.
Shoigu lagði blómsveig að minnisvarða um sovéska hermenn sem börðust ásamt Kínverjum með Norður Kóreumönnum gegn Suður Kóreu sem studd var af Bandaríkjunum og öðrum Vesturlöndum.
Þá lagði varnarmálaráðherra Vladimir Putins einnig blómsveig að minnisvarða um fyrstu einræðisherra Norður Kóreu, þeirra Kim Il Sung og Kim Jong Il.
Rússar eru vinafáir eftir innrásina í Úkraínu. Margir telja að þeir vilji sýna með heimsókninni að bæði Norður Kórea og Kína standi með þeim þótt Kínverjar hafi reyndar ekki sent þeim umbeðin vopn svo vitað sé. Hins vegar eru uppi getgátur um að Norður Kórea hafi útvegað Rússum vopn.