Nýverið var greint frá því að hollenska öryggisfyrirtækið Midnight Blue hafi uppgötvað fimm veikleika í kerfinu sem eru meðal annars sagðir gera óprúttnum aðilum kleift að afdulkóða samskipti, koma fyrir skilaboðum og bera kennsl á notendur. Tveir þessara veikleika hafa verið flokkaðir alvarlegir. Tetra talstöðvakerfi eru víða notuð í Evrópu af löggæslu, ríkisstofnunum og viðbragðsaðilum.
„Við vitum af þessu. Þetta á aðallega við um þetta svokallaða TEA1 kerfi sem er ekki það kerfi sem er í notkun hjá okkur. Við erum að vinna á TEA2 og vitum ekki til þess að það hafi orðið neinir öryggisbrestir eða neinn grunur um að neitt slíkt hafi orðið,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar í samtali við fréttastofu.
Fylgjast vel með
Jón veit ekki til þess að tölvuþrjótar hafi nýtt sér þá öryggisbresti sem fundist hafi í hinu kerfinu þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á fræðilegan möguleika þess.
Hann segir að Neyðarlínan sé í sambandi við Motorola, söluaðila kerfisins hér á landi og fylgist vel með, bæði í gegnum samstarfsstofnanir erlendis og framleiðanda búnaðarins.
„Þetta er náttúrulega aðallega kannski þeirra að bregðast við þessu. Það er ekki mikið sem notendurnir geta gert einir og sér.“