Í lokaumferð riðlakeppninnar á HM mætti bandaríska liðið Portúgal og þrátt fyrir að hafa verið sterkari aðilinn í leiknum mátti engu muna að Bandaríkin töpuðu leiknum. Í uppbótartíma slapp varamaðurinn Ana Capeta í gegnum vörn bandaríska liðsins en skaut í stöng. Leikar fóru 0-0 og það dugði Bandaríkjakonum til að komast áfram.
Eftir leikinn gagnrýndi Lloyd sína gömlu liðsfélaga, fyrir spilamennskuna og að fagna sætinu í sextán liða úrslitum óhóflega.
„Ég hef aldrei upplifað neitt svona lagað. Að vera dansandi, brosandi. Ég meina, stöngin var maður leiksins,“ sagði Lloyd. „Þið eruð heppnar að vera ekki á heimleið.“
Lloyd útskýrði ummæli sína frekar í gær og dró verulega í land með gagnrýni sína.
„Ég var mjög gagnrýnin á liðið í gær. Ég hef fengið smá tíma til að melta þetta og sofa á þessu og ég vil að fólk skilji að ég ann þessu liði,“ sagði Lloyd.
"I want people to understand that I care deeply about this team."@CarliLloyd shares how her previous comments on the USWNT come from a place of admiration and how they were reflected in a legacy of success and generational greatness pic.twitter.com/2TIv8YQOVr
— FOX Soccer (@FOXSoccer) August 2, 2023
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ummæli Lloyds eru Lindsey Horan, leikmaður bandaríska liðsins, og þjálfari þess, Vlatko Andonovski. Hann sagði ummælin galin.
Bandaríkin mæta Svíþjóð í sextán liða úrslitum á HM á sunnudaginn. Bandaríska liðið varð heimsmeistari 2015 og 2019.