„Ég var úti með börnin mín á skólalóðinni þegar ég sé allt í einu að nítján mánaða strákurinn minn heldur á einhverju hvítu í hendinni sem er á leiðinni upp í munn. Ég stekk af stað og næ að kippa þessu úr hendinni á honum og sé að þetta er nikótínpúði. Þannig ég ákveð að ganga hring á skólalóðinni og ég fann fimmtán stykki á örfáum mínútum,“ segir Stefanía Ösp.
Þekkt vandamál
Stefanía vakti athygli á málinu á Facebook og eins og sést létu viðbrögðin ekki á sér standa. Foreldrar segja ástandið ólíðandi. Mikil aukning hefur orðið í notkun ungmenna á svokölluðum nikótínpúðum og svo virðist sem notuðu púðarnir eigi erfitt með að finna ruslatunnur, því þá má finna á víð og dreifð á götum borgarinnar, meðal annars á leikvöllum og skólalóðum.

Tilkynningum fjölgar
Sérfræðingur hjá eitrunarmiðstöð Landspítalans segir tilkynningum vegna barna sem hafa innbyrt slíka púða fari sífell fjölgandi. Að meðaltali sé tilkynnt um eitt tilfelli á viku. „Ég held að margir átti sig ekki á hversu hættulegt þetta er. Það er lífshættulegt að innbyrða nikótínpúða fyrir börn og gæludýr þannig við þurfum öll að vera á varðbergi fyrir þessu,“ segir Stefanía Ösp. Auk hættunnar fylgi þessu mikill sóðaskapur.
„Auðvitað þurfa þeir sem eru að nota púðana að henda þessu í ruslið en á meðan þetta er á götunum þá langar mig til að hvetja fólk að vera með hanska og pikka þetta upp svo að leiksvæði og skólalóðir verði öruggur staður fyrir börnin okkar,“ segir hún jafnframt og vekur um leið athygli á því að í nikótínpúðadollunum sé sérstakt hólf fyrir notaða púða.