Slökkviliðsmenn glímdu enn við elda sem blossa upp í gær og líkleitarhundar leituðu í brunarústum bæjarins Lahaina sem brann nánast til kaldra kola á þriðjudag og miðvikudag. Hundarnir höfðu í gær þó aðeins náð að fara yfir um þrjú prósent hamfarasvæðisins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Tala þeirra sem er enn saknað er nokkuð á reiki en hún gæti hlaupið á hundruðum. Ættingjar fjölda þeirra hafa leitað á náðir samfélagsmiðla til þess að reyna að fá upplýsingar um afdrif þeirra. Komið hefur verið á fót skrá yfir þúsundir manna sem hafa fundist á lífi á netinu og eins þá sem enn er saknað.
Gróðureldarnir eru mannskæðustu náttúruhamfarirnar í sögu Havaíríkis. Þann vafasama heiður hafði áður flóðbylgja sem varð 61 að bana árið 1960, árinu eftir að Havaí varð að bandarísku ríki. Þá eru eldarnir þeir mannskæðustu í Bandaríkjunum frá Cloquet-eldinum sem varð 453 að bana í Minnesota og Wisconsin árið 1918.

Josh Green, ríkisstjóri Havaí, segir að viðbrögð við eldunum og neyðarviðvörunarkerfi verði rannsakað. Aldrei heyrðist múkk í almannavarnaflautum sem eiga að gella þegar náttúruhamfarir verða og fjöldi íbúa hefur lýst því að þeir hafi átt fótum sínum fjör að launa þegar eldur lagði heimili þeirra í rúst á skömmum tíma. Margir köstuðu sér í sjóinn til þess að flýja eldinn og reykinn.
Fleiri en 2.700 byggingar eyðilögðust í Lahaina. Green áætlar að eignatjónið þar nemi 5,6 milljörðum dollara, jafnvirði 743 milljarða íslenskra króna.