Dos Anjos er fyrrum léttivigtarmeistari í UFC sem hefur nú skipt yfir í veltivigtardeildina. Brassinn laut í lægra haldi gegn Vicente Luque á bardagakvöldi UFC í Las Vegas á dögunum.
MMA blaðamaðurinn Mike Bohn segir að á þessum tímapunkti ferilsins hjá hinum 38 ára gamla Dos Anjos sé kannski fátt sem heillar en Bohn kastar þó nafni Gunnars Nelson inn í hringinn sem mögulegan andstæðing fyrir næsta bardaga Dos Anjos.
„Bardagi við Gunnar Nelson er eitthvað sem myndi henta vel á þessum tímapunkti. Plan A hjá Gunnar gegn Dos Anjos væri án efa að ná honum niður í gólfið og reyna að hengja hann en hann er ekki eins mikil líkamleg ógn líkt og sumir bardagamenn deildarinnar.
Það eru góðir möguleikar á því að Dos Anjos gæti haldið bardaganum standandi nógu lengi til þess að eiga möguleika á sigri.“
Bohn bendir í sömu andrá á þá staðreynd að Gunnar er sjóðandi heitur þessa dagana í UFC, hefur unnið tvo bardaga í röð með frammistöðu sem sjá til þess að hann verðskuldar bardaga gegn vel virtum bardagamanni á borð við Dos Anjos.
„Gunnar átti í erfiðleikum þegar að honum var stillt upp á móti stórum bardagamönnum á borð við Gilbert Burns, Leon Edwards og Demian Maia.
Nú þegar að hann er orðinn 35 ára gamall gæti þetta verið síðasta tækifæri hans til þess að sanna að hann geti náð enn lengra en hann hefur sýnt til þessa.“