„Ég endaði á því að synda tíu kílómetra en straumar voru óvenjulegir samkvæmt heimamanni á bátnum. Straumarnir sem venjulega hjálpa manni í lokin voru algjörlega að vinna á móti okkur þó svo að það hafi enn verið að flæða að,“ segir Sigurgeir.
Grettissundið frá Drangey að Reykjanesi á Reykjaströnd er sjö kílómetrar í beinni línu. En vegna þessa óhagstæðu strauma lengdist sundið. Sigurgeir var rúma fjóra og hálfa klukkustund í sjónum og kláraði sundið klukkan 21:18.

„Það var mjög kalt, kaldara en ég bjóst við,“ segir Sigurgeir. „Sjórinn var heitastur í átta gráðum samkvæmt skipstjóranum í Drangeyjarferðum. Mikið af köldum strengjum sem voru um sex gráður. Svo er víst hápunktur marglyttutímabils þarna sem bjó til áskorun út af fyrir sig. Það var heill hellingur af þeim alla leiðina yfir og í eitt skipti synti ég inn í straum sem var algjörlega fullur af þeim. Á einum tímapunkti sá ég ekkert nema marglyttur og er allur brunninn eftir þær.“
Sigurgeir synti Vestmannaeyjasundið á síðasta ári og hann stefnir á að synda yfir Ermarsundið árið 2025.

