Fótbolti

Yfir­maður sam­taka at­vinnu­dómara viður­kennir að Wol­ves hafi átt að fá víti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úlfarnir áttu að fá vítaspyrnu þegar Andre Onana lenti á Sasa Kalajdzic í uppbótartíma venjulegs leiktíma.
Úlfarnir áttu að fá vítaspyrnu þegar Andre Onana lenti á Sasa Kalajdzic í uppbótartíma venjulegs leiktíma. Stu Forster/Getty Images

Jon Moss, yfirmaður samtaka atvinnudómara á Englandi, viðurkenndi fyrir Gary O'Neil, þjálfara Wolves, að dómarar leiksins hafi gert mistök og að lið hans hafi átt að fá vítaspyrnu gegn Manchester United í gær.

Úlfarnir máttu þola 1-0 tap er liðið heimsótti Old Trafford í gærkvöldi, en með réttu hefðu gestirnir átt að fá gullið tækifæri til að jafna leikinn í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

André Onana, markvörður Manchester United, kom þá í úthlaup sem endaði á því að hann keyrði Sasa Kalajdzic, sóknarmann Wolves niður. Onana ætlaði að kýla boltann frá marki, en Craig Dawson vann skallaboltann og kamerúnski markvörðurinn komst í raun hvergi nærri boltanum.

Dómari leiksins, Simon Hooper, dæmdi hins vegar ekkert og eftir skoðun myndbandsdómara var ákveðið að hann þyrfti ekki að fara sjálfur í skjáinn.

Gary O'Neil, þjálfari Wolves, sagði svo frá því eftir leik að Jon Moss, yfirmaður samtaka atvinnudómara á Englandi (PGMOL), hefði viðurkennt að um mistök hafi verið að ræða.

„Jon Moss sagði að þetta hafi verið klárt víti. Hann baðst afsökunar sem er bara vel gert hjá honum,“ sagði O'Neil.

„Ég er búinn að eyða miklum tíma með honum í dag til að reyna að skilja nýju reglurnar og reyna að næla mér ekki í spjald í fyrsta leiknum, en það mistókst.“

„En vel gert hjá Moss og viðurkenna að þetta hafi verið augljós mistök. Hann trúði ekki ákvörðuninni á vellinum og trúði því ekki heldur að VAR hafi ekki stigið inn í.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×