Erin Patterson bauð fjórum ættingjum fyrrverandi eiginmanns síns í mat í lok júlí síðastliðinn. Voru það foreldrar hans, Don og Gail Patterson, systir Gail, Heather Wilkinson, og eiginmaður hennar, Ian.
Eftir að hafa innbyrt steikina sýndu þau öll fjögur einkenni eitrunar og létust bæði Don og Gail, sem og Heather. Ian er enn á gjörgæslu þar sem hann berst fyrir lífi sínu.
Afar eitraðir sveppir
Talið er að sveppirnir sem Patterson notaði í steikina hafi verið grænserkir, þekktir á ensku sem „Death cap“. Eru þeir með eitruðustu sveppum í heimi og valda meirihluta dauðsfalla af völdum sveppaeitrunar í heiminum.
Patterson hefur ekki verið ákærð vegna dauðsfallanna en er hún samt sem áður grunuð í málinu þar sem hún eldaði máltíðina og er sú eina sem borðaði hana án þess að verða alvarlega veik. Hún heldur því sjálf fram að hafa keypt hluta sveppanna í asískri verslun nokkrum mánuðum áður og hinn hlutann í matvörubúð skömmu fyrir matseldina.
Segist saklaus
Lögreglan hefur gert húsleit á heimilli Patterson og fjarlægðu hluti af heimilinu sem eru nú til rannsóknar. Lögreglan segist enn vera með opinn huga þegar kemur að því hvað átti sér stað.
„Ég er eyðilögð yfir því að sveppirnir gætu hafa leitt til veikinda þeirra sem mér þykir vænt um. Ég vil endurtaka enn og aftur að ég hef enga ástæðu til þess að meiða þetta fólk sem ég elskaði,“ hefur CNN eftir Patterson.
Patterson hefur átt í góðu sambandi við fyrrverandi eiginmann sinn, son Patterson-hjónanna. Saman eiga þau tvö börn sem einnig voru viðstödd máltíðina en fengu þau annan mat og urðu ekki veik.