Katrín Sunna og fjölskylda munu taka þátt í skemmtiskokkinu svokallaða á laugardaginn kemur. Hún segist taka þátt af því að hún var með krabbamein, en ekki lengur.
Hún fylgdist með foreldrum sínum hlaupa fyrir sama málefni í fyrra af hliðarlínunni, enda þá í miðri krabbameinsmeðferð.
Mikill fjöldi fólks hefur þegar heitið á hana og rúm hálf milljón króna hefur safnast fyrir SKB. Hún segist hafa búist við því að svo margir myndu heita á hana.
Annað kom ekki til greina en að taka þátt í ár
Erling Daði Emilsson, faðir Katrínar Sunnu segir að hún hafi séð stemninguna í skemmtiskokkinu í fyrra og ekkert annað hafi komið til greina en að taka þátt í ár.

Hann segir SKB hafa gripið fjölskylduna allt frá greiningardegi og verið með henni í gegnum allt ferlið.
„Það eru mömmuhópar og pabbahópar og listatímar fyrir börnin og systkini, svo fátt eitt sé nefnt. Þannig að það er gríðarlegur stuðningur.“
Þeir sem vilja heita á Katrínu Sunnu til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna geta gert það hér.