BBC greinir frá þessu en kviðdómur komst að niðurstöðu í málinu í dag sem vakið hefur mikla athygli í Bretlandi síðustu ár. Letby á meðal annars að hafa sprautað lofti í kornabörnin og eitrað fyrir þeim með insúlíni.
Dómari mun tilkynna um refsingu yfir Letby á mánudaginn í næstu viku.
Drápin áttu sér stað á tímabilinu júní 2015 til júní 2016 á barnadeildinni á Countess of Chester-sjúkrahúsinu í Chester, suður af Liverpool. Málið var rekið fyrir dómstól í Manchester, en Letby neitaði sök í málinu. „Ég gerði mitt besta til að passa upp á börnin. Ég er hér til að hjálpa og veita aðhlynningu, ekki til að skaða,“ sagði Letby við aðalmeðferð málsins.
Öll fórnarlömbin yngri en eins árs
Hin 33 ára Letby var handtekin árið 2018 og birti lögregla í dag myndband af handtökunni.
Ákæra í málinu var í 22 liðum. Hún var sýknuð af ákæru um mánndráp í tveimur málum og kviðdómur náði ekki saman um niðurstöðu í sex málum þar sem hún var ákærð fyrir tilraun til manndráps. Öll fórnarlömb Letby voru yngri en eins árs gömul.
Saksóknarar í málinu lýstu drápunum sem „úthugsuðum“ og „grimmum“ og sökuðu hana um að hafa í nokkrum tilvikum gert nokkrar tilraunir til að bana börnunum. Réttarhöld í málinu hafa staðið í um níu mánuði.

Við rannsókn lögreglu kom í ljóst að atvikin hafi átt það sameiginlegt að einn hjúkrunarfræðingur hafi verið á vakt í öllum tilvikum; Lucy Letby. Þá áttu dauðsföllin sér stað á næturnar þegar Letby var á næturvöktum en eftir að hún var færð yfir á dagvaktir fóru atvikin að eiga sér stað á daginn.