Greint er frá þessu í nýju Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag og má nálgast hér. Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur árið 2022. Hafa ber í huga að þær tekjur endurspegla þó ekki endilega öll laun viðkomandi.
Forseti lýðveldisins var að jafnaði með 3,2 milljónir króna á mánuði miðað við greitt útsvar á síðasta ári. Á sama tíma var Jón með 2,6 milljónir króna, og Katrín með 2,5 milljónir króna á mánuði.
Næst á listanum yfir forseta, alþingsmenn og ráðherra kemur Birgir Ármannsson, forseti Alþingis með 2,3 milljónir króna á mánuði og Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með 2,1 milljón króna. Fyrir neðan þá raða sér fimm ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem fengu að jafnaði 2,0 milljónir á mánuði árið 2022 miðað við greitt útsvar.
Tekjuhæstu stjórnmálamennirnir árið 2022
- Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands - 3,2 milljónir
- Jón Gunnarsson, alþingismaður og þáverandi dómsmálaráðherra - 2,6 milljónir
- Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra - 2,5 milljónir
- Birgir Ármannsson, forseti Alþingis - 2,3 milljónir
- Bjarni Jónsson, alþingismaður - 2,1 milljónir
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumark.ráðherra - 2,0 milljónir
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, nýsköpunarráðh. - 2,0 milljónir
- Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra - 2,0 milljónir
- Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra - 2,0 milljónir
- Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir, utanríkisráðherra - 2,0 milljónir
Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í dag en rétt er að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2022 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2021 sem var greiddur árið 2022.
Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá en í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Þá ber að hafa í huga að inn í tekjunum geta líka verið einskiptisgreiðslur vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.
Verktakagreiðslur flokkast ekki sem útsvarsskyldar tekjur og eru því ekki teknar fyrir í álagningaskrá Ríkisskattstjóra sem Tekjublaðið styðst við.