Miðvinstrimaðurinn Arévalo vann afgerandi sigur í annarri umferð forsetakosninganna 20. ágúst. Hann hlaut 60,9 prósent atkvæða gegn 37,2 prósentum Söndru Torres, frambjóðanda hægri vængsins.
Þrátt fyrir sigurinn ríkti óvissa um hvort að Arévalo fengi að taka við embætti forseta 14. janúar. Ríkissaksóknari sakar Fræhreyfingu hans um að misferli í söfnun undirskrifta þegar flokkurinn var stofnaður.
Óháð yfirkjörstjórn landsins staðfesti sigur Arévalo í gær. Á sama tíma felldi kjörská landsins skráningu Fræhreyfingarinnar úr gildi í tengslum við rannsókn saksóknarans. Því er ekki ljóst hvort að þingmenn flokksins fái að taka sæti sín á þingi, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Héðan í frá getur enginn stöðvað mig í að taka við embætti 14. janúar,“ sagði Arévalo á blaðamannafundi. Hann hét því að áfrýja úrskurðinum um flokkinn til yfirkjörstjórnar.

Órói og svikabrigsl
Spilling er landlæg í Gvatemala. Ráðastéttin þar er sökuð um að beita dómskerfinu fyrir sig til þess að koma pólitískum keppninautum sínum fyrir kattarnef. Nokkrum frambjóðendum var meinað um að bjóða sig fram í forsetakosningunum af ýmsum ástæðum. Arévalo lagði meðal annars áherslu á baráttu gegn spillingu í kosningabaráttu sinni.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er á meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhyggjum af tilraunum til þess að grafa undan úrslitum forsetakosninganna í Gvatemala. Erlend og innlend samtök hafa einnig gagnrýnt handtökuskipanir á hendur starfsmanna kjörstjórnar og húsleit í höfuðstöðvum Fræhreyfingarinnar.
Torres, mótframbjóðandi Arévalo í annarri umferð kosninganna, hefur sakað hann um kosningasvik. Hún hefur enn ekki viðurkennt ósigur. Alejandi Giammattei, fráfarandi forseti og bandamaður Torres, hefur ekki tjáð sig um nýjustu vendingar.
Stuðningsmenn Arévalo hafa mótmælt tilraunum til þess að reyna að halda honum frá völdum. Mannréttindanefnd Samtaka Ameríkuríkja óskaði eftir því að gvatematölsk stjórnvöld gættu öryggis Arévalo af ótta við að hann yrði ráðinn af dögum.
Arévalo er sonur Juan José Arévalo, fyrsta lýðræðislega kjörna forseta Gvatemala. Hann fæddist í Úrúgvæ eftir að faðir hans fór í útlegð í kjölfar þess að Jacobo Árbenz, eftirmanni Arévalo, var steypt af stóli í valdaráni sem naut fulltingis bandarísku leyniþjónustunnar CIA árið 1954.