Fyrirtækið RMST í Georgíu í Bandaríkjunum sem á rétt að bjargmunum úr flaki Títaniks stefnir að því að senda fjarstýrðan kafbát að því í maí á næsta ári. Hann á að taka myndir af flakinu, þar á meðal inni í því þar sem göt hafa myndast á skrokk skipsins. Til stendur að safna munum úr braki í kringum flakið og mögulega lausa muni innan úr því, að sögn AP-fréttastofunnar.
Þessu mótmælir bandaríska alríkisstjórnin fyrir dómstóli í Virginíu. Hún segir að alríkislög og samkomulag sem bandarísk og bresk stjórnvöld gerðu sín á milli um að líta á flakið sem grafreit banni að farið sé inn í skipsskrokkinn eða hreyft við munum þar.
RMST segist ekki hafa áform um að opna skipsskrokkinn eða fjarlægja nokkurn hluta flaksins að svo stöddu. Fyrirtækið ætli að hafa samráð við Haf- og loftslagsststofnun Bandaríkjanna (NOAA) en telji sig ekki þurfa að sækja um leyfi. Fyrirtækið hefur nú þegar safnað og varðveitt þúsundir muna úr flaki Títaniks, að eigin sögn.
Fyrir þremur árum ætlaði sama fyrirtæki sér að skera gat á flakið til þess að ná í talstöð skipsins sem var notuð til þess að senda út örvæntingarfull neyðarköll. Þau áform fóru út um þúfur vegna kórónuveirufaraldursins og sambærilegt dómsmál þess og alríkisstjórnarinnar dagaði uppi.
Fleiri en 1.500 manns fórust þegar Títanik rakst á ísjaka og sökk árið 1912. Skipið var þá stærsta skip sem smíðað hafði verið og var talið ósökkvandi. Það sökk í jómfrúarferð sinni frá Southampton á Englandi til New York í Bandaríkjunum.