Hjördís er fyrrum leikmaður Víkings og núverandi samskiptastjóri Almannavarna á meðan að Elíza Gígja dóttir hennar er hluti af núverandi liði Víkings Reykjavíkur í fótbolta sem er ríkjandi bikarmeistari og tryggði sér í gær sigur í Lengjudeildinni og um leið sæti í Bestu deildinni að ári.
Víkingar tryggðu sér sæti í efstu deild með sigri gegn Fylki í gær þar sem að áhorfendamet var slegið. Elíza hefur þurft að horfa á liðsfélaga sína vinna glæsta sigra á meðan hún er sjálf föst utan vallar..
„Ég slít krossband í maí í fyrra og því skrítið fyrir mig að vera á hliðarlínunni þegar að þetta er allt að gerast en bara öðruvísi gaman. Ég hef ekkert spilað í sumar en vonandi fæ ég einhverjar mínútur í þessum síðustu tveimur leikjum,“ segir Elíza og segir endurhæfinguna eftir þessi erfiðu meiðsli ganga vel.
Hún viðurkennir að það reyni vel á að geta ekki tekið þátt í leikjum liðsins þegar að svona vel gengur.
„Eftir undanúrslitin í bikarnum þurfti ég bara að fara í kælingu því ég trúði ekki að þetta væri að gerast og ég horfði niður og sá mig í strigaskóm en ekki takkaskóm.
Svo kom úrslitaleikurinn og ég bara í liðsstjóra hlutverkinu að bera töskur og svona, það var mjög absúrd. Ég hef verið í þessu félagi síðan árið 2007 eða eitthvað og hélt ég myndi ekki lifa þann dag að sjá okkur vinna titla. Það virtist aldrei vera raunhæfur möguleiki. Svo er þetta að gerast og maður er í strigaskónum. Þetta er blaut tuska í andlitið en ég kem sterkari til baka.“

Þáttinn má sjá í heild sinni hér fyrir ofan og þar er farið nánar í ævintýri Víkingskvenna í sumar sem og fyrri tíð þegar að Hjördis var sem leikmaður hjá Víkingi.
Þá var spáð í spilin fyrir komandi úrslitakeppni Bestu deildarinnar sem hefst á morgun með tveimur leikjum í efri hlutanum.
Úrslitakeppni Bestu deildar kvenna verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.