Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs, en um er að ræða sex metra hátt listaverk þýska listamannsins Björn Dahlem sem til stendur að reisa á bílastæði við gamla skíðaskálann á næstu mánuðum.
Elísabet Gunnarsdóttir hjá ArtsIceland hefur verið tengiliður Dahlem sem starfar við Bauhaus-háskólann í Weimar, og unnið að því að láta verkið verða að veruleika í firðinum.
„Björn Dahlem var hjá okkur á Ísafirði skömmu fyrir Covid og varð strax hrifinn og sá fyrir sér að verkið gæti sæmt sér vel á Seljalandsdal. Hann er búinn að fjármagna verkið og stefnir að því að setja upp svona verk víðs vegar um heim, meðal annars í Japan.“
„Drulluhrædd“
Elísabet segir staðsetninguna vera alveg frábæra þarna fyrir ofan bæinn. „Það er góður vegur þangað upp að gönguskíðasvæðinu. En hugsunin er að verkið verði þarna tímabundið í nokkur ár, kannski þrjú til fimm. Við ætluðum í þetta núna í ágúst eða september en það er möguleiki að þetta dragist fram á vor. Það þarf að byggja pall og koma skúlptúrnum svo ofan á.“
Hún segir þó einhverja „drulluhrædda“ við hugmyndir um að koma upp slíkum lendingarstað fyrir geimverur.

„Ég fæ alls konar skemmtilegar athugasemdir, eins og hvernig eigi að verjast geimverunum ef þær koma, hvort þetta verði eins með skemmtiferðaskipin, að geimverurnar flæði yfir bæinn eins og ferðamennirnir. Fólk er nú samt yfirleitt brosandi þegar það kemur með þessar athugasemdir,“ segir Elísabet.
Hún segir um sex metra turn að ræða með speglum á. „Þannig að hann sést langt að. Þetta er líka hugsað sem íhugunarstaður þar sem fólk gæti sest niður, velt fyrir sér öðrum víddum og komist út úr hversdeginum. Það er hugsunin á bakvið þetta.“
Mikið aðdráttarafl
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segist sömuleiðis mjög spennt fyrir því að fá listaverkið til bæjarins.
„Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og kallast kannski svolítið á við útsýnispallinn í Bolungarvík. Þetta er hugsað bæði fyrir ferðamenn og heimamenn og verður auðvitað staðsett á miklu útivistarsvæði í Seljalandsdal. Ég held að þetta verði mikið aðdráttarafl, hvort sem það verður fyrir geimverur eða aðra,“ segir Arna Lára létt í bragði.