Gistináttaskatturinn var felldur niður árið 2020 og var um að ræða hluta af aðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Fyrst var áætlað að gjaldið félli nður frá 1. apríl 2020 til ársloka 2021 en niðurfellingin síðar framlengd til ársloka 2023.
Um var að ræða lækkun á tekjum um rúmlega 3,6 milljarða króna. En á árunum 2020 til 2022 nam skattalækkunin 2,1 milljarða króna.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 kemur fram að vinna standi yfir með hagaðilum þar sem skoðaðar verði ólíkar leiðir, meðal annars í ljósi tæknibreytinga, um breytt gjalda-og skattaumhverfi fyrir ferðaþjónustu.
Tekjuáhrif breytinga á gildissviði skattsins, svo að hann nái til skemmtiferðaskipa, eru áætluð 2,7 milljarðar króna.
Segir í frumvarpinu að krónutölugjöld verði hins vegar almennt ekki látin fylgja verðlagi, ólíkt fyrra ári þar sem þau hafi haldist í hendur við verðlagsforsendur. Þannig munu þau aðeins uppfærast um 3,5 prósent um áramót en með því eru skattarnir um 3 milljörðum króna lægri en ef þeir hefðu fylgt verðlagi.