Fótbolti

Sárnar fréttirnar og segir ágóðann renna til góðgerðarmála

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
John Terry er ekki sáttur við að fjölmiðlar hafi ekki greint frá því að hann sé að safna peningum til góðgerðarmála með því að rukka fyrir eiginhandaráritanir.
John Terry er ekki sáttur við að fjölmiðlar hafi ekki greint frá því að hann sé að safna peningum til góðgerðarmála með því að rukka fyrir eiginhandaráritanir. Naomi Baker - The FA/The FA via Getty Images

John Terry, fyrrverandi fyrirliði Chelsea, segir að allur ágóði af „Kvöld með John Terry,“ nýjum viðburði þar sem aðdáendum gefst tækifæri á að hitta Chelsea-goðið, renni til góðgerðarstarfsemi.

Fyrr í vikunni greindu fjölmiðlar frá því að aðdáendum Terry gæfist nú tækifæri til að hitta þennan fyrrverandi leikmann Chelsea og enska landsliðsins í eina kvöldstund. Það væri þó ekki frítt þar sem venjulegt verð fyrir miða er 25 pund, en borga þarf hundrað pund til að fá eiginhandaráritun frá Terry, eða tæplega sautján þúsund krónur.

Ef fólk vill svo snæða með Terry þarf það að greiða fimm hundruð pund sem jafngildir rétt rúmlega 84.000 krónum. Inni í þeirri upphæð er líka eiginhandaráritun og mynd með Terry.

Terry hefur nú svarað fyrir sig og útskýrir af hverju fólk þarf að borga fyrir eiginhandaráritanir. Í myndbandi sem birtist á samfélagsmiðlum Terry segir hann að allur ágóðinn af „Kvöld með John Terry“ renni til góðgerðamála.

„Ég vildi bara snerta aðeins á þessum fréttum sem hafa verið að birtast um mig og að ég sé að rukka aðdáendur fyrir eiginhandaráritanir, myndir og fleira. Stóra málið í þessu - og þetta er mjög mikilvægt - sem gleymdist að nefna er að allur ágóðinn af þessum viðburðum er að safna peningum fyrir góðgerðarsjóðinn John Terry 26 Foundation,“ segir Terry.

„Það er eina ástæðan fyrir því að ég er að halda þessi kvöld. Ég kom þessum sjóð af stað fyrir sjö eða átta mánuðum af því að ég vildi sjálfur gera eitthvað persónulegt og ég mun á endanum halda stóran Gala-kvöldverð og golfmót og aðra viðburði til að safna peningum í sjóðinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×