Að sögn Guðjóns Helgasonar upplýsingafulltrúa Isavia hefur verið full mönnun í öryggisleitinni í allan morgun. Hann segir fimmtudaga hins vegar annasama á vellinum, líkt og mánudaga, og þá geti það gerst að það myndist röð niður stigann.
Biðtíminn hefur hins vegar ekki farið yfir 20 mínútur í morgun en viðmiðið er að 95 prósent farþega bíði aðeins um 15 mínútur að hámarki í öryggisleit. Að sögn Guðjóns hefur það verið raunin allt árið, það er að segja þar til veikindi urðu þess valdandi að undirmannað var á mánudag.
Guðjón segir um tug starfsmanna enn veika en hann viti ekki hvort um sé að ræða sömu einstaklinga eða hvort veikindin séu að breiðast út. Hins vegar hafi gengið vel að manna stöður og tafirnar í morgun séu þannig tilfallandi.