„Framkvæmdaleyfið áskilur að rask sé sem minnst og einnig á þeim tíma sem samningar voru gerðir voru landeigendur ekki áfjáðir í að setja áningarstað á þessari leið og því var ekki samið um það,“ segir Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri Vestfjarðavegar hjá Vegagerðinni, í svari við fyrirspurn fréttastofu.

Í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi var vakin athygli á því að hvergi á leiðinni væri gert ráð fyrir áningarstað svo vegfarendur gætu staldrað við og notið dásemdar svæðisins. Fram kom í viðtali við framkvæmdastjóra verktakans Borgarverks, Atla Þór Jóhannsson, að við hönnun vegarins hefði Vegagerðin ekki gert ráð fyrir áningarstað. Atli Þór tók þó fram að hægt væri að bæta áningarstað inn í verkið, ef þess yrði óskað.

„Það er aftur á móti ætlunin að setja áningarstað í Grónesi. Það er þó ekki endanlega búið að ganga frá þessu,“ segir Sigurþór hjá Vegagerðinni.

Grónes er á milli Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Framundan er að þvera og brúa báða firðina og þegar því verki lýkur mun Vestfjarðavegur færast af Ódrjúgshálsi og yfir á Grónes.

„Þar er náma samkvæmt skipulagi og við frágang á henni verður útbúinn áningarstaður og námuvegur notaður sem aðkomuleið,“ segir verkefnisstjóri Vegagerðarinnar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi: