Fótbolti

Maguire undrar sig á gagnrýninni og efast ekki um hlutverk sitt hjá Man Utd

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Maguire hefur mátt þola mikla gagnrýni undanfarið.
Harry Maguire hefur mátt þola mikla gagnrýni undanfarið. Gareth Copley/Getty Images

Harry Maguire, leikmaður Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, undrar sig á þeirri gagnrýni sem hann hefur mátt sæta undanfarnar vikur.

Maguire hefur mátt þola mikla og háværa gagnrýni undanfarnar vikur fyrir frammistöðu sína með Manchester United og enska landsliðið. 

Í gegnum tíðina hefur miðvörðurinn oft verið skotspónn gagnrýnisradda eftir að hann gekk í raðir United fyrir um 80 milljónir punda frá Leicester árið 2019, en nú eru gagnrýnisraddirnar orðnar það háværar að Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, hefur tjáð sig opinberlega og kallað meðferðina á miðverðinum „fáránlega.“

Southgate er ekki sá eini sem hefur komið Maguire til varnar því móðir hans hefur einnig stigið fram og segir það taka mjög á að horfa upp á soninn þurfa að ganga í gegnum það að­kast sem beint hefur verið að honum undan­farið.

Leikmaðurinn sjálfur virðist þó ekki taka gagnrýnina of mikið inn á sig. Eftir 3-1 sigur enska landsliðsins gegn því skoska á þriðjudaginn, þar sem Maguire skoraði sjálfsmark, sagðist hann ráða vel við það að vera í sviðsljósinu.

Í umfjöllun Sky Sports um málið segir að Maguire fylgist ekki með umræðunni á samfélagsmiðlum eða í blöðunum. Þá segir einnig að Maguire hafi fulla trú á sjálfum sér og stöðu sinni hjá Manchester United, en að hann hafi þó meiri áhyggjur af áhrifunum sem gagnrýnin hefur á fjölskyldu sína og þá sem standa honum næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×