Þetta var þriðji heimaleikurinn í röð þar sem HK-ingar missa niður forystu. Þeir gátu þó á endanum verið nokkuð sáttir við stigið enda enn sex stigum frá fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.
Fram er aftur á móti komið upp úr fallsæti en liðið er með tuttugu stig, jafn mörg og ÍBV, en betri markatölu.
Gestirnir úr Úlfarsárdalnum fengu vítaspyrnu á 25. mínútu þegar Kristján Snær Frostason braut á Jannik Pohl. Fred Savaria tók vítið en skaut yfir.
Staðan var markalaus í hálfleik en eftir þrjár mínútur í seinni hálfleik kom Arnþór Ari Atlason HK-ingum yfir með skalla eftir aukaspyrnu Ívars Arnar Jónssonar.
Á 77. mínútu dæmdi Vilhjálmur Alvar Þórarinsson aðra vítaspyrnu á HK þegar Ahmed Faqa sparkaði Pohl niður. Brotið var fyrir utan teig en vítið samt sem áður niðurstaðan. Pohl urðu ekki á nein mistök á vítapunktinum og skoraði af öryggi. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 1-1 í Kórnum.
Mörkin og vítin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.