Fótbolti

Eigendur Chelsea séu velkomnir í búningsklefann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mauricio Pochettino býður eigendur Chelsea velkomna í búningsklefann eftir leiki.
Mauricio Pochettino býður eigendur Chelsea velkomna í búningsklefann eftir leiki. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, segir að eigendur félagsins séu velkomnir inn í búningsklefa liðsins svo lengi sem þeir mæti ekki til að halda ræðu.

Gengi Chelsea undanfarnar vikur og mánuði hefur ekki verið upp á marga fiska og Behdad Eghbali, einn af eigendum félagsins, sást fara inn í búningsklefa liðsins eftir tap Chelsea gegn Aston Villa síðastliðinn sunnudag.

Eftir erfitt gengi á síðasta tímabili þar sem Chelsea hafnaði í 12. sæti virðist liðið ekki hafa náð að rétta úr kútnum fyrir nýhafið tímabil. Liðið situr í 14. sæti með aðeins fimm stig úr fyrstu sex leikjum tímabilsins og því veltu margir fyrir sér hvað eigandi liðsins væri að vilja inn í klefa eftir tapið um helgina.

„Ég kann að meta það þegar eigendurnir mæta inn í klefa,“ sagði Pochettino. „Á öllum mínum þjálfaraferli, hjá Espanyol, Southampton, Tottenham og PSG, hefur þetta gerst.“

„Ég held að það sé gott að eigendurnir komi inn í búningsherbergið eftir leiki. En það skiptir máli hvernig þeir tala við leikmennina,“ bætti Pochettino við.

„Ef þeir gera það á góðan hátt þá eru þeir velkomnir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×