Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Í allri einlægni verð ég að viðurkenna að ég er ekki viss um að ég viti nokkurn skapaðan hlut um tísku. Mig grunar að sú staðreynd að ég sé að tjá mig hérna svona mál við fjölmiðla verði jafnvel snemmbúin jólagjöf fyrir vini mína og fjölskyldu. Þau eiga eftir að fá kast og stríða mér á þessu í svona tvö ár.
Í gegnum tíðina ég hef reglulega gert þau mjög vandræðaleg og í verstu tilvikum jafnvel valdið þeim nokkrum áhyggjum með því að hafa alveg svakalega lítið vit á tísku og smartheitum.
Fyrir mér eru skór og flíkur, sem ég ímynda mér að séu uppistaðan í því sem flokkist sem tíska, aðallega eitthvað til að verja okkur frá umhverfinu eins og kulda og því að fá glerbrot í iljarnar og svoleiðis. En auðvitað hlýtur þetta að vera miklu flóknara en svo, þó að ég hafi aldrei náð að setja mig inn í það.
Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinum fatahönnuði sem ég fylgist með. Nema henni Eygló sem er í Kiosk úti á Granda. Mér finnst allt sem hún gerir mjög flott og alltaf gaman að sjá hvað hún gerir nýtt því það er alltaf eitthvað fyndið við það sem hún býr til.
Mikilvægast finnst mér að föt sé þægileg, hlý og örugg. Þar á eftir er mega þau endilega vera fyndin.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Fyrir nokkrum vikum heillaðist ég af pönkhljómsveitinni Boob Sweat Gang. Þær eru svo æðislegar. Síðast þegar ég fór á tónleika með þeim keypti ég af þeim forlátan hlaupabol og ég er ekki frá því að hann láti mig mig hlaupa aðeins betur.
En því miður er flíkin sem ég nota mest ekki hlaupafötin mín heldur einhver hlýr blár flíssloppur með stjörnum á sem ég keypti einhvern tímann á útsölu fyrir klink. Ég lofa sjálfri mér reglulega að nota hann bara heima. En ef ég fer á American bar að horfa á Liverpool keppa klukkan 11:30 þá gerist það alveg að ég fer í honum út af heimilinu. Ég bý svo nálægt Austurstrætinu að ég labba þá bara yfir á inniskónum í sloppnum.
Vinir mínir eru steinhættir að horfa með mér á þessa leiki sem byrja fyrir hádegi. Það gæti tengst þessum ljóta slopp, þó þeir séu svo nærgætnir að segjast alltaf bara vera of þunnir.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei. Þegar ég er búin að finna eitthvað hlýtt og nálægt rúminu mínu mínu þegar ég fer á fætur finnst mér gaman að finna einhverja flík sem er með vösum.
Þess vegna finnst mér gaman alltaf gaman að eiga veiðivesti. Þó ég myndi aldrei nokkurn tíma veiða dýr. En ég elska vasana á þessum vestum. Hægt að vera með penna, blöð, dót, nammi og nokkrar kaldar bjórdósir bara alltaf á sér. Fullkomið.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég myndi nú helst bara forðast það í lengstu lög. Allavega í öllum eðlilegum samtölum út í bæ. Um daginn var ég í fínu matarboði í Vesturbænum og fór að tala mjög mikið um sperðileitrun. Ég fattaði svo næsta dag að það var sennilega ekki góð hugmynd að ræða það áhugamál mitt í kringum fólk sem er að borða. Held þau bjóði mér aldrei nokkurn tímann aftur í mat.
Næst ætla ég að reyna að tala bara um stílinn minn. Það verður vandræðalegt og skrítið. En minni líkur á að fólki gubbi. Alls ekki útilokað, en aðeins minni líkur.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Nja, það held ég ekki. Illu heilli myndu margir segja. Ég held hann hafi alltaf verið bara frekar óúthugsaður og kaótískur.
Vonandi tekst mér einn daginn að verða almennileg tískudrottning. Það er örugglega mjög gaman.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Innblástur væri nokkuð sterkt orð til að lýsa því hvernig ég vel flíkur. Nema hægt sé að flokka kuldann úti, leti mín og hyskni sem innblástur. Það eru allavega atriði sem stjórna mest vali mínu á fötum.
Um daginn hlustaði ég reyndar á mjög skemmtilega smásögu þar sem Mörgæsamaðurinn og Mary Poppins hittast í matarboði og spjalla um þá list að svífa niður háar byggingar með regnhlíf.
Síðan hefur mig langað svo í að fá mér kjólfatajakka eins og mörgæsamaðurinn er alltaf í. Ég held það væri gaman að eiga svoleiðis.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Um daginn labbaði ég á vinnustofuna mína í netasokkabuxum og kjól sem byrjaði að skríða upp lærin á mér og endaði allur upp við mittið á mér sem ég uppgötvaði ekki fyrr en ég kom á vinnustofuna sem þýðir að ég hef gengið í gegnum miðbæinn og hálfan Vesturbæinn eiginlega á rassinum. Ég myndi segja að það væri ekki alltaf gott að gera nágrönnum sínum það að sýna þeim á sér bossann.
Ég myndi aldrei banna öðrum að bera sína eigin rass en svona alla jafna ætti ég ekkert að vera að bera minn neitt víða. Svo mín persónulega regla er: Að vera helst ekki á rassinum, svona út í bæ alla vega.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Eftir að ég flutti í miðbæinn hef ég gert í því að labba hægt um Ingólfstorg í leðri í þeirri von um að mér verði þá boðið að gerast meðlimur í mótórhjólaklíku. Með engum árangri þó. Mig grunar að þau sjái að ég er oftast bara í pleather. Svo er líka heldur ekki með neitt bílpróf í ofan á lag. Svo ég gæti alltaf bara staðið nálægt mótorhjóli og reykt sígarettur en aldrei brunað í burtu með þeim.
Ég rakst svo á einn leðurjakka í Verzlanahöllinni síðasta vor sem mér fannst algjört æði og ákvað að kaupa hann. Þáverandi kærasti minn sagði að ég væri eins og tónlistarmaðurinn Rúnar Þór í honum í honum. Ég held að hann hafi verið að reyna að hæðast að mér.
En sú spæling hafði ekkert bit því mér finnst Rúnar Þór bara kúl og ég elska að fara á tónleika með honum á Catalinu. Svo ég þurfti bara að láta þennan kærasta róa og held áfram að ganga um í jakkanum, alveg alsæl í því sem hugsanlega verður alltaf bara einsmannsgengið mitt.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Kaupa allt með vösum, þeir gera allt lífið skemmtilegra. Kíkja í Kiosk úti á Granda, svo margt fallegt og flott þar á öllu svæðinu í kring og enda á að fá sér einn kaldan í Kaffivagninum.
Já og svo mæli ég alltaf með að styðja lókal pönkhljómsveitir þegar þær eru með einhvern varning til sölu!
Hér er hægt að fylgjast með Kamillu á samfélagsmiðlinum Instagram.