Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum. Þrír eru ákærðir í málinu fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Tveir danskir ríkisborgarar sem voru um borð í skútunni, fæddir árið 1970 og 1989, og einn danskur ríkisborgari í viðbót sem færði þeim vistir í fjörunni við Garðskagavita á Reykjanesi.
Óvænt skemmtiferð
Það var að kvöldi 23. júní sem sást til skútu úti við Garðskagavita. Maður sást sigla út skútunni á gúmmíbát og annar maður beið hans í fjörunni. Sáust þeir bera vistir, bensín og utanborðsmótor úr bíl yfir í gúmmíbátinn. Sami maður sigldi svo gúmmíbátnum á ný út í skútuna. Í framhaldinu fór lögregla um borð í skútuna þar sem þriðja manninn var að finna auk þess sem sótti vistir á gúmmíbátnum.
Við leit í skútunni fundust rúm 157 kíló af hassi og fjörutíu grömm af maríjúana. Voru þremenningarnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald og hafa verið í því síðan. Fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar almannahagsmuna. Þriðji maðurinn kærði nýlegan gæsluvarðhaldsúrskurð til Landsréttar sem hafnaði kröfu hans.
Í úrskurðinum kemur fram að þriðji maðurinn, sem til einföldunar verður kallaður skútumaðurinn í þessari frétt, hafi sagt um óvænta skemmtiferð að ræða með hinum skipverjanum. Hann sagðist hafa vitað af hinum skipverjanum í meira en tíu ár en þekkti hann þó ekki vel.
Millifærði fyrir kaupunum
Þeir hefðu byrjað ferðina sunnan við Bergen í Noregi og planið verið að sigla í kringum Ísland og þaðan til Danmerkur. Þeir hefðu lent í stormi og því stoppað við Íslandsstrendur til að nálgast vistir. Hann hefði hvorki þekkt né séð manninn sem færði þeim vistir. Þá hefði hann ekki vitað af neinum fíkniefnum í skútunni.
Lögregla hafði samband við fyrrverandi eiganda skútunnar og fékk upplýsingar um hver hefði borgað fyrir hana. Fyrrverandi eigandinn framvísaði millifærslu upp á 150 þúsund danskar krónur, rúmar þrjár milljónir íslenskra króna, þar sem fram kom að skútumaðurinn millifærði upphæðina 10. mars.
Skútumaðurinn tjáði lögreglu í skýrslutöku að upphæðin hefði verið lögð inn á hann og hann sjálfur millifært á fyrrverandi eigandann.
Áfram í steininum
Skútumaðurinn sagðist ekki vita hver hefði lagt inn á reikninginn sinn, það hefði verið í nokkrum millifærslum en hann myndi ekki hve mörgum. Hann hefði upplýsingar í símanum sínum um hver hefði beðið hann um það en myndi ekki hvað viðkomandi héti.
Skútumaðurinn hefur endurtekið verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og kært þá niðurstöðu til Landsréttar. Úrskurðirnir hafa ekki verið birtir á vef Landsréttar til þessa vegna rannsóknarhagsmuna lögreglu. Skútumaðurinn telur ekki forsendu fyrir varðhaldi því hann hafi ekki vitað af fíkniefnunum.
Landsréttur féllst á það með héraðsdómi að maðurinn sætti áfram gæsluvarðhaldi til 12. október. Gæsluvarðhaldsfangar eru vistaðir í fangelsinu á Hólmsheiði. Málið var þingfest á dögunum og neita allir þrír sök.