Hælisleitendur frá Venesúela eru hræddir og reiðir eftir að kærunefnd útlendingamála úrskurðaði að heimilt væri að synja umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi. Greint hefur verið frá því í kvöldfréttum Stöðvar tvö að um fimmtán hundruð Venesúelabúar dvelji hér á landi og bíði nú eftir endanlegri niðurstöðu frá Útlendingastofnun og kærunefndinni.
Af þeim fimmtán hundruð sem nú bíða niðurstöðu eru margir með atvinnu hér. Samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu var atvinnuþátttaka 647 flóttamanna sem komu Íslands frá Venesúela á árunum 2018 til 2022 86,5 prósent. Helgi Þorsteinsson Silva, lögmaður, segir yfirgnæfandi meirihluta Venesúelabúa sem bíða niðurstöðu vera starfandi.
„Bæði eftir að hafa hlotið vernd og einnig mjög stór hluti sem nýtir sér úrræðið að vera með bráðabirgðaatvinnuleyfi á meðan umsóknin er til meðferðar,“ segir hann.
Unnur Sverrisdóttir, fortjóri Vinnumálastofnunar, segir engar tölur til í þeirra skrám um fjölda starfandi. „Þetta fólk fékk flest mannúðarleyfi og viðbótarvernd og slíkum dvalarleyfum fylgir líka réttur til vinnu þannig það er ekki skráð hjá okkur hversu margir eru í vinnu af þessum hópi. Þau koma í rauninni aldrei inn á borð hjá okkur,“ segir Unnur.
Atvinnuþátttaka flóttafólks hafi þó verið mjög góð hingað til. „Núna er staðan þessi og hefur verið á þessu ári. Það er gríðarleg eftirspurn eftir fólki til starfa. Það er meira framboð af störfum heldur en fólki til að vinna. Ferðaþjónustan hefur tekið mikinn kipp og það er mjög mannaflafrek grein sem þarf mjög margar hendur og þar hefur fólk náttúrulega safnast í vinnu.“
Venesúelabúum sem fréttastofa ræddi við á laugardag þykir ákvörðun íslenskra stjórnvalda furðuleg. Sér í lagi í ljósi þess að Bandaríkjamenn ákváðu að framlengja tímabundna vernd Venesúelabúa í landinu um átján mánuði sökum ástandsins þar í landi. Á það þó eingöngu við um þá sem komu til Bandaríkjaríkjanna og fengu landvistarleyfi fyrir 31. júlí þessa árs.
Uppfært 4. október
Vinnumálastofnun segir í tilkynningu á vef sínum að útgefin bráðabirgðaatvinnuleyfi til íbúa frá Venesúela séu 56 talsins frá 1. janúar 2022. Því sé það rangt sem fram komi í máli Helga lögmanns að stór hluti umrædds hóps sé starfandi með slíkt atvinnuleyfi. Stofnunin áréttar að hún býr ekki yfir neinni tölfræði um atvinnuþátttöku íbúa frá Venesúela sem fengið hafa alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hér á landi.