Hreinn meirihluti dugir til að fjarlægja þingforsetann en Repúblikanar eiga 221 sæti í deildinni og Demókratar 212. Fáir Repúblikanar hafa lýst yfir stuðningi við framgöngu Gaetz og því afar ólíklegt að tillagan nái fram að ganga.
Tillögur um að fjarlægja forsetann hafa aðeins tvisvar áður verið lagðar fram og voru felldar í báðum tilvikum. John Boehner stóð af sér atlögu árið 2015 en fyrsta tillagan var lögð fram árið 1910.
Gaetz hefur sakað McCarthy um að hafa samið við Demókrata um að koma fjárstuðningi við Úkraínu í gegnum þingið seinna gegn stuðningi við fjárlagafrumvarpið um helgina. McCarthy hefur neitað ásökununum.
Just did. https://t.co/zdQk3GblbV
— Matt Gaetz (@mattgaetz) October 2, 2023
Gaetz sagði tvennt myndu gerast næstu daga; annað hvort yrði McCarthy ekki lengur forseti fulltrúadeildarinnar eða hann yrði forseti fulltrúadeildarinnar undir hæl Demókrata. Báðar niðurstöður væru Gaetz þóknanlegar, þar sem hann vildi aðeins að Bandaríkjamenn vissu hver stjórnaði þeim.
Alexandra Ocasio-Cortez, þingkona Demókrataflokksins, segir koma til greina að styðja McCarthy að gefnum ákveðnum skilyrðum. Vinsældir hans eru þó takmarkaðar meðal Demókrata, ekki síst vegna ákvörðunar hans um að samþykkja rannsókn á hendur forsetanum, Joe Biden.
Ef hann tapaði embættinu tekur við efsti maður á lista sem þingforseta ber að hafa til reiðu en hefur ekki verið gerður opinber.