Stjörnumenn byrjuðu leikinn af fítonskrafti og strax á 4. mínútu kom Eggert Aron Guðmundsson þeim yfir eftir góða sókn og sendingu Örvars Loga Örvarssonar.
Þremur mínútum síðar bætti Hilmar Árni Halldórsson öðru marki við. Hann skaut þá boltanum yfir Þórð Ingason, markvörð Víkings, af löngu færi.
Á 61. mínútu var Eggert aftur á ferðinni. Hann skoraði þá þriðja mark Garðbæinga með frábæru skoti í fjærhornið. Hann hefur skorað tíu mörk í Bestu deildinni í sumar.
Helgi Guðjónsson skoraði sárabótarmark fyrir Víkinga á 78. mínútu. Lokatölur 3-1, Stjörnunni í vil. Með sigrinum tryggði liðið sér Evrópusæti.
Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.