Rasmus Højlund skoraði tvö mörk fyrir Manchester United í Meistaradeildinni í gær sem dugðu þó ekki til sigurs á móti tyrkneska félaginu Galatasaray þar sem leikurinn tapaðist 2-3.
United hefur reyndar tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í Meistaradeildinni en danski framherjinn hefur skorað í báðum leikjunum.
Með því varð hann yngsti leikmaðurinn til að skora í fyrstu tveimur Meistaradeildarleikjum sínum síðan að Erling Braut Haaland gerði það með Red Bull Salzburg haustið 2019.
Hojlund var aðeins 20 ára og 241 dags gamall á Old Trafford í gærkvöldi en Haaland var 19 ára og 73 daga þegar hann náði því.
Haaland skoraði í fimm fyrstu leikjum sínum í Meistaradeildinni, samtals átta mörk, þar af skoraði hann þrennu á móti Genk og tvö mörk á móti Napoli.
Hojlund hefur ekki náð að skora löglegt mark í fjórum leikjum og á fyrstu 267 mínútum sínum í ensku úrvalsdeildinni en tvö marka hans hafa verið dæmd af. Hann finnur aftur á móti netmöskvana í Evrópuleikjunum.