Liverpool skoraði mark í stöðunni 0-0 sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu.
Það sást greinilega á sjónvarpsmyndunum að Luis Díaz var réttstæður og markið átti alltaf að standa. Myndbandadómararnir klúðruðu hins vegar málunum og útkoman var algjört klúður.
Tottenham vann síðan leikinn á sjálfsmarki á síðustu sekúndum leiksins en Liverpool var þá orðið níu á móti ellefu.
„Ég er á því að leikurinn ætti að vera endurtekinn en það mun líklegast ekki gerast. Það hefur ekki gerst áður en að mínu mati átti að vera spilaður annar leikur,“ sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundi í dag.
„Ég er ekki reiður út í dómarana og mér finnst að við eigum að láta þá í friði. Þeir gerðu mistök og sváfu líklega ekki vel eftir leikinn,“ sagði Klopp.
Breska ríkisútvarpið segir að enska úrvalsdeildin sé ekki að íhuga það að spila leikinn aftur.
Liverpool spilar næst á morgun á móti belgíska félaginu Union St.Gilloise í Evrópudeildinni.