Meðal þeirra sem er saknað eru 22 hermenn en búðir hermanna og farartæki þeirra eru sögð hafa grafist í leðju sem fylgdi flóðunum.
Samkvæmt AP fréttaveitunni eyðilögðust minnst ellefu brýr í flóðunum auk þess sem flóðin skemmdu vegi. Þau skemmdu einnig rúmlega 270 heimili en flóðin ruddu hluta stíflu á Teesta-ánni á brott sem gerði þau enn verri.
Times of India segir að verið sé að kanna hvort jarðskjálftar í Nepal, sem urðu um sama leyti og flóðin, hafi átt þátt í því að stíflan brast.
Gangtok, höfuðborg Sikkim-héraðs á Indlandi, er sögð alfarið einangruð frá restinni af landinu. Þar sem flóðin hafi einnig sópað öllum símalínum á brott.
Mikið hefur rignt í norðanverðu Indlandi, við rætur Himalajafjalla, á undanförnum vikum og mánuðum. Nærri því fimmtíu manns dóu í flóðum og aurskrifðum í Himachal Pradesh-héraði í ágúst. Þá dóu rúmlega hundrað manns á tveggja vikna tímabili á norðanverðu Indlandi í júlí vegna flóða.
Sérfræðingar segja veðurfarsbreytingar hafa gert flóð tíðari á norðanverðu Indlandi, þar sem jöklar séu að bráðna sífellt hraðar.