Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV. Þar segir að listrænir stjórnendur keppninnar verði Högni Egilsson, Selma Björnsdóttir, Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson.
Söngvakeppnin fer fram í febrúar og mars og verður með svipuðu sniði og síðustu ár. Tíu lög verða valin til þátttöku og etja kappi í beinni útsendingu þrjú laugardagskvöld. Fyrri undanúrslitin eru 17. febrúar, seinni undanúrslitin 24. febrúar og úrslitakvöldið er 2. mars þar sem framlag Íslands í Eurovision í Malmö í maí verður valið.
Alls bárust 118 lög í keppnina og valnefnd hefur skilað inn niðurstöðu sinni. Framleiðendur keppninnar taka svo endanlega ákvörðun um hvaða tíu lög taka þátt. Eins og síðustu ár verður nokkrum höfundum boðin bein þátttaka í keppninni. Á næstunni verður haft samband við höfundana og í kjölfarið hefjast upptökur, hugmyndavinna og æfingar á atriðum.
Síðustu tvö ár hefur keppnin verið haldin í kvikmyndaverinu í Gufunesi. Söngvakeppnin 2024 verður á tveimur stöðum. Undanúrslitin fara fram í kvikmyndaveri Truenorth í Fossaleyni og úrslitin verða í Laugardalshöll.
„Með þessu móti getum við tekið á móti helmingi fleiri áhorfendum en í Gufunesinu, bæði á svokallað fjölskyldurennsli 1. mars og svo á úrslitakvöldið 2. mars,“ er haft eftir Rúnari Frey Gíslasyni, verkefnastjóra sjónvarps hjá RÚV.