Um 300 manns sitja nú að tafli í fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga 2023-24 sem fer fram um helgina í Rimaskóla. Keppendur eru allt frá sex upp í níutíu ára.
„Veislan heldur áfram í dag þegar lokaumferð fyrri hlutans fer fram. Taflfmennskan hefst klukkan 11 og stendur til um klukkan 15. Áhorfendur eru velkomnir,“ segir Gunnar Björnsson frá Skáksambandi Íslands í tilkynningu.

Í tilkynningu frá skáksambandinu kemur fram að Skákdeild Fjölnis hafi nú forystu í úrvalsdeildinni, með fullt hús stiga, átta talsins, eftir að hafa unnið allar sínar viðureignir.
Taflfélag Reykjavíkur er í öðru sæti með sex stig og Víkingaklúbburinn er í þriðja sæti með fimm stig. Þessi þrjú félög eru í nokkrum sérflokki.
Staðan
1. Skákdeild Fjölnis 8 stig
2. Taflfélag Reykjavíkur 6 stig
3. Víkingaklúbburinn 5 stig
4. Taflfélag Vestmannaeyja 2 stig (12½ vinninga)
5. Skákdeild KR 2 stig (12 vinningar)
6. Taflfélag Garðabæjar 1 stig
Skákdeild Breiðabliks er í efsta sæti í 1. deild og segir í tilkynningu að deildin sé líkleg til að endurheimta sæti sitt í bestu deildinni að ári. B-sveit KR er á toppnum í 2. deild, Skákfélag Sauðárkróks í þeirri þriðju og Dímon frá Hveragerði í þeirra fjórðu.