Samningar náðust um opnun landamærana eftir margra klukkustunda langan fund Joe Biden Bandaríkjaforseta og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í fyrradag. Biden sagði þá að hann vonaðist til þess að neyðarbirgðir hæfu að berast strax daginn eftir.
Fréttastofa AP greinir frá því að í nótt hafi vörubílar hafið að streyma yfir landamærin. Ríflega tvö hundruð slíkum hafi verið komið fyrir við landamærin Egyptalandsmegin með um það bil þrjú þúsund tonn af neyðarbirgðum innanborðs. Af þeim tvö hundruð bílum hefur tuttugu verið hleypt yfir landamærin.
Þá hafi hundruð íbúa Gasa farið yfir landamærin í hina áttina í von um það að flýja átökin í heimalandinu.
Greint var frá því í gærkvöldi að Hamasliðar hefðu sleppt tveimur bandarískum konum sem þeir tóku gíslingu í árás þeirra á Ísrael, sem varð kveikjan að stríðinu. Stjórnvöld í Ísrael höfðu tilkynnt að þau myndu ekki leyfa neina neyðaraðstoð á Gasa fyrr en gíslunum yrði sleppt. Í frétt AP segir að ekki sé ljóst hvort opnun landamæranna tengist sleppingu kvennanna.