Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Það sem mér finnst skemmtilegast við tískuna er bara að standa út. Líka að geta komið einhverju á framfæri. Til dæmis að geta látið gera sérmerkta Kópbois jakka, hettupeysur og fleira. Mér finnst það geðveikt.
Herra Hnetusmjör er meðlimur í strákasveitinni Iceguys. Í spilaranum hér að neðan má sjá tónlistarmyndband þeirra við lagið Krumla:
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Svarið mitt hér fyrir ofan leiðir svolítið að uppáhalds flíkinni minni. Það er Kópbois jakkinn minn, svartur baseball jakki úr ull og leðri með lógó-inu. Mér finnst hann trylltur.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei ég geri það ekki. Ég er yfirleitt með svona tvennar til þrennar buxur sem ég rótera og svo er ég bara frekar basic, nema að ég sé að fara eitthvað sérstakt. Í seinni tíð fýla ég líka að vera í frekar látlausu fitti og svo með eitthvað sleggju úr við.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég veit það ekki alveg.
Ætli ég mynd ekki bara lýsa honum sem pabbi sem var einu sinni nettur.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já en samt ekki. Ég fylgi alltaf svolítið bara hiphop-inu. Ég var að kaupa risastóra ECCO jakka og gallabuxur þegar ég var tólf ára og núna er ég í hettupeysum með lógóinu mínu á eða í Versace silkiskyrtum eins og rapparinn Rick Ross.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég sæki hann mikið til Bandaríkjanna og hiphop-sins þar.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ég er svona nýbyrjaður að blanda saman gulli og silfri, eða gulli og hvítagulli. Það var svona bann hjá mér áður fyrr.
Svo er maður alltaf að þróast og það er eitthvað nýtt sem dettur í tísku sem var kannski eitthvað sem passaði ekki fyrir tveimur árum. En ég hef aldrei rokkað skinny jeans, það er kannski bara bannið mitt.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Mér finnst mest iconic flík sem ég hef klæðst vera Kópbois jakkinn sem ég hef rosa mikið verið í undanfarið ár.
En það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég les eftirminnilegasta flík er líklega fjögurra milljón krónu pelsinn sem ég klæddist í Já ég veit myndbandinu frá Eggerti feldskera.
Mér leið ekkert rosalega vel í honum af því að þetta er ekkert eðlilega dýr flík en djöfull lúkkaði ég maður.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Ég mæli með að vera í því sem þú þorir að klæðast. Um leið og þú ferð í eitthvað sem þú þorir ekki að vera í þá sjá það allir. Þannig að bara: Do you.
Hér má fylgjast með Herra Hnetusmjöri á samfélagsmiðlinum Instagram.