Noregur var eina Norðurlandið sem greiddi atkvæði með tillögu Jórdaníu um vopnahlé á Gasa á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á föstudag. Ísland sat hjá við atkvæðagreiðsluna og hefur afstaðan hlotið töluverða gagnrýni. Þingflokkur Vinstri grænna sagði meðal annars í ályktun í gær að rétt hefði verið að greiða atkvæði með tillögunni. 120 lönd greiddu atkvæði með, 45 sátu hjá og 14 voru á móti.
Sjá einnig: Segja að Ísland hefði átt að samþykkja ályktun um vopnahlé
Støre segir fyllilega ljóst að Norðmenn hafi fordæmt árásir Hamas á Ísrael en telur gagnárásir, eða „sjálfsvörn,“ Ísraela, úr hófi.
Ísraelski sendiherrann svarar ummælunum
„Þetta er ljótt stríð og ég er hræddur um að hatrið muni aukast. Meiri þvermóðska og meiri eyðilegging. Þeir hafa að sjálfsögðu sinn sjálfsvarnarrétt og ég átta mig á því. Eldflaugum er enn skotið af Gasa yfir til Ísraels og ég fordæmi það. En samkvæmt alþjóðalögum verður að gæta hófs og taka verður almenna borgara með inn í reikninginn. Ísraelar hafa farið langt yfir línuna,“ segir forsætisráðherrann norski.
Støre leggur áherslu á að átökin séu hræðileg á báða bóga og segir að gera verði vopnahlé, til að aðstoða bágstadda borgara á stríðshrjáðum svæðum. Enginn vafi leiki á því að Hamas verði að sleppa ísraelskum gíslum.
Sendiherra Ísraels í Noregi, Avraham Nir-Feldklein, svarar forsætisráðherranum og segir við Norska ríkisútvarpið að háttsemi Ísraela sé í fullu samræmi við alþjóðalög. Hamas-liðar skýli sér bak við óbreytta borgara og haldi til í borgaralegum mannvirkjum.
„Þeir staðir sem Hamas-liðar dvelja á eru nýttir til hryðjuverka og eru því eðlileg hernaðarleg skotmörk. Þar af leiðandi er sjálfsvörn Ísraela í fullu samræmi við alþjóðlög,“ segir sendiherrann.