Bandaríski leikarinn Dwayne Johnson, sem margir þekkja undir gælunafninu The Rock nú eða bara Steinar, vakti athygli fyrir sinn búning þetta árið. Hann er auðvitað einn vinsælasti leikari heims og var áður þekktur fjölbragðaglímumaður.
The Rock mætti nefnilega sem enska fótboltagoðsögnin David Beckham á sína hrekkjavöku.
Johnson fann Manchester United búning númer sjö merktum Beckham á bakinu. Það er óhætt að segja að hann hafi fyllt vel út í treyjuna.
Búningurinn fór ekki fram hjá David Beckham sjálfum sem skrifaði athugasemd á samfélagsmiðlum og mælti með því að Johnson fengi sér stærri treyju. „Mér fannst ég vera að horfa í spegil,“ grínaðist Beckham í athugasemd sinni.
Beckham er ein af fyrstu fótboltastjörnunum sem fóru yfir til Bandaríkjanna til að spila í MLS-deildinni. Hann vakti mikla athygli á íþróttinni í landinu og hefur seinna gert enn meira fyrir íþróttina með því að stofna nýtt félag í Miami og sannfæra Lionel Messi um að koma og spila fyrir liðið.