Fjölskyldurnar krefjast þess meðal annars að Hamas-samtökin verði sótt til saka fyrir þjóðarmorð og að handtökuskipun verði gefin út á hendur leiðtogum samtakanna, segir í yfirlýsingu lögmanns þeirra.
Um 1.400 létust í árásum Hamas og yfir 200 voru teknir höndum og er haldið í gíslingu.
Að sögn lögmannsins, Francois Zimeray voru einstaklingarnir níu allir almennir borgarar. Sumir þeirra voru viðstaddir Tribe of Nova-útihátíðina, þar sem að minnsta kosti 260 voru myrtir.
Zimeray segir Hamas-liða ekki neita sök, heldur hafi þeir þvert á móti skrásett árásirnar og sent út og þannig séu staðreyndir málsins óumdeildar.
Lögmaðurinn sagði í samtali við frönsku útvarpsstöðina Radio Classique að hann forðaðist það að gera of mikið úr hlutunum en að hann og teymi lögmanna hefðu komist að þeirri niðurstöðu að árásin og atburðarásin uppfyllt skilyrði til að flokkast sem þjóðarmorð.
Hver sem er getur sent inn mál til Alþjóðasakamáladómstólsins en það er dómstólsins að ákveða hvort hann tekur málið til rannsóknar. Saksóknari á vegum dómstólsins hefur sagt að allir mögulegir stríðsglæpir í yfirstandandi átökum falli undir valdasvið dómstólsins.
Teymi á vegum hans hafa hins vegar ekki komist inn á Gasa en Ísrael er ekki aðili að dómstólnum.